GLÆSIBÆJAREINTÖLIN

ÁLITSGJAFI

SÖNGVARI

VENJULEG STELPA

NEFNDARFORMAÐUR

SYSTIRIN

STÓRKARL

DANSMÆR

KNATTSPYRNUÁHUGAMAÐUR

FYRIRSÆTA

SJÓMAÐUR

DJÓKARI

HÚSVÖRÐUR

VEFSTÓLL

FORSÍÐA





Stórkarlinn

Ég sagði honum það
sagði honum það strax
en hann vildi ekki trúa mér
sagði honum að þetta væri bölvuð drusla
sem færi í fimmtíuþúsund kílómetrana
og svo bara...
geim óver á mælinum
en hann vildi ekki trúa því þessi hálfviti
eða kannski var það bara níska
eða ræfildómur
hann hefur aldrei kunnað að hugsa stórt
og er alltaf að væla um blankheit
en hann getur sjálfum sér um kennt
að hanga hálfa ævina í skóla
til að komast í láglaunadjobb hjá ríkinu
ég meina
ég eyddi þar ekki stundinni lengur en ég þurfti
og ég eyði meira í hádeginu
en hann vinnur sér inn allan daginn

Nei
Það er ekkert smátt við mig
Ég læt sérsauma á mig smokka
í belgjagerðinni

Og hvað hann var helvíti sár
þegar við Gulla...
hvað hafði hann að gera með svona kvenmann?
mér er bara spurn
og allt er leyfilegt í ástum og stríði
ekki satt?
...
ekki satt?!
hún elskaði mig
andskotinn hafi það
hann átti ekki séns í hana
skilurðu?
æ
mér er andskotans sama hvað þér finnst

Það er ekkert smátt við mig
það er svo stórt undir mér
að ég lendi í erfiðileikum
þegar ég dansa kvikkstepp

Sá hann síðast uppi í garði
svona helvíti beygðan
svo sem ekkert...
Skömm að því að sjá
að hann gerir ekkert við leiðið
sami trékrossinn sem var settur upp þegar...
Minn er kominn með stein
marmara með englum og gylltum hörpum
Hvíl í friði
Hvíl í..
...

Það er ekkert smátt við mig
Það er stærra undir mínum krossi
en hans...

Var alltaf á móti því að hann væri að hanga með honum
vissi alltaf að hann yrði lúser eins og pabbi hans
þetta eru víst allt erfðir
eigi má sköpum renna
og allt það
eða segir maður sköpun renna?
æ
það skiptir engu
það er ekkert smátt við mig
og ég tala vitlaust ef ég vill

Nei
hann vildi ekki trúa mér
hann vildi ekki trúa mér
hann vildi ekki...

Þarna situr hann
karlauminginn
og grenjar utan í fúinn trékross
og býst örugglega við að ég bjóði honum far
...
Ætli ég verði ekki að gera það
ég get ekki horft uppá hann taka strætó
Hann verður auðvitað svo andskoti þakklátur
að ég æli yfir hann en auðvitað þarf hann
ekki að vera þakklátur því við eigum of
mikið sameiginlegt af því strákarnir okkar keyrðu
sig í klessu í sameiningu og við tölum ekki um
það hvor keyrði
eða hver átti..
eða hvað..
...
nei
nei
nei
því
því það
því það er ekkert smátt við mig
það er ekkert smátt...
það er ekkert...

 

© Benóný Ægisson


Efst á síðu